Sport

Einherjar skylmast við Jokerana frá Þýskalandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Frá leik með Einherjum í Kórnum.
Frá leik með Einherjum í Kórnum. mynd/einherjar
Íslenska ruðningsliðið Einherjar slær ekki slöku við en á morgun mun liðið taka á móti þýska liðinu Hof Jokers í Kórnum í Kópavogi.

Þetta er fyrsti leikur ársins hjá liðinu en þegar eru þrír leikir skipulagður. Þann 16. mars mun liðið spila gegn bandarísku liði í fyrsta skipti og í maí er lið frá Finnlandi væntanlegt til landsins.

Einherjar hafa alls spilað níu leiki gegn erlendum liðum og unnið sex þeirra. Þeir hafa oft yljað íslenskum áhorfendum með frábærum leik og ekki síst er þeir flengdu Fálkana frá Köln á síðasta ári, 50-0. Búist er við mun meiri mótspyrnu á morgun.

Jokers vann þýsku 4. deildina í fyrra og er að spila vel í 3. deildinni enda meðal annars með þrjá sterka Bandaríkjamenn innan sinna raða. Þetta gæti því orðið afar áhugaverður slagur.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 á morgun og verða veitingar til sölu á veskisvænu verði.

Hér má lesa meira um viðburðinn á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×