Fótbolti

Rúnar: Allt annað lið en ég spilaði við 2012

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson á góðar minningar frá því að spila gegn Andorra en árið 2012 þreytti hann frumraun sína með landsliðinu gegn Andorra og skoraði þá líka sitt fyrsta landsliðsmark.

„Við spiluðum reyndar á öðrum velli þá en þetta var minn fyrsti landsleikur og ég skoraði í honum, sem var jákvætt. En í minningunni var þetta ekki skemmtileg upplifun, það voru tíu manns í stúkunni og steindautt á vellinum. En fyrsti landsleikurinn er alltaf sérstakur,“ sagði hann.

Rúnar segir að Andorra spili talsvert öðruvísi fótbolta í dag en liðið gerði árið 2012.

„Þá töpuðu þeir flestum leikjum, voru út um allt og fremur villtir. Það er annað uppi á teningnum í dag og þetta verður allt annar leikur,“ sagði Rúnar sem segir að það þýði ekkert að láta leikmenn Andorra fara í taugarnar á sér.

„Við getum ekkert haft áhrif á hvernig þeir haga sér og spila. Við verðum að einbeita okkur að okkur sjálfum.“

Andorra er gerólíkt þeim liðum sem Ísland hefur mætt undanfarna mánuði. „Þetta snýst bara um hugarfar. Þetta er sama íþróttin og þrjú stig í boði. Þetta er leikur sem við verðum að vinna og ekkert flóknara en það. Við þurfum þessi þrjú stig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×