Fótbolti

Ari Freyr útilokar endurkomu í Val: Gerði mömmu vonsvikna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Peralada skrifar
Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er ekki á heimleið og hefur útilokað að spila í Pepsi Max-deildinni á næstunni. Þetta sagði hann í samtali við Vísi í dag.

„Við erum ekki á leiðinni heim. Ég hef verið búsettur erlendis í sextán ár og mun líklega enda þar. Núna gerði ég mömmu mína mjög vonsvikna en ég held að ég muni ekki búa á Íslandi á næstunni,“ sagði Ari Freyr sem er uppalinn Valsmaður og hafði verið orðaður við sitt gamla félag.

Samningur hans við Lokeren rennur út í sumar. Liðið er mjög líklega fallið þó svo að það gæti breyst ef mál þróast á þann veg en mörg félög í Belgíu eru nú að bíða eftir úrskurði yfirvalda í stórtækum spillingarmálum sem hafa verið í belgískri knattspyrnu síðastliðna mánuði.

„Ég er opinn fyrir öllu og vil spila eins lengi og ég get. Ég er lítill og nettur, hef verið þokkalega heppinn með meiðsli og hef enn gaman að þessu. En ég vil heldur ekki taka ákvörðun of fljótt,“ sagði Ari sem gæti þess vegna verið búinn að spila sinn síðasta leik í Belgíu.

„Við skítféllum fyrir þremur leikjum þegar við spiluðum við Anderlecht. En út af þessum spillingarmálum vitum við ekki hvort við föllum eða ekki. En það er þó ljóst að við spilum ekki meira þetta tímabilið og munum bara æfa þrisvar í viku til loka apríl. Þetta er mjög skrýtið allt saman.“

Ari er nú að undirbúa sig fyrir fyrstu leiki Íslands í undankeppni EM 2020, gegn Andorra á föstudag og Frakklandi á mánudag.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það virðast allir vera í góðu standi. Þetta er erfiður leikur gegn Andorra og mér sýnist að margir séu hræddir við þá. En ef við spilum okkar leik og gerum það sem við eigum að gera - þá eigum við að fá þrjú stig á föstudag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×