Erlent

Gillibrand tilkynnir formlega um forsetaframboð

Andri Eysteinsson skrifar
Vegferð Kirsten Gillibrand í Hvíta húsið mun hefjast fyrir utan Trump International hótelið.
Vegferð Kirsten Gillibrand í Hvíta húsið mun hefjast fyrir utan Trump International hótelið. Getty/Scott Eisen
Bandaríska öldungadeildarþingkonan Kirsten Gillibrand hefur formlega boðið sig fram til embættis Bandaríkjaforseta. Gillibrand varð því fjórtandi frambjóðandinn sem sækist eftir tilnefningu Demókrataflokksins. CNN greinir frá.

Gillibrand tók við sæti í Öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd New York ríkis af Hillary Clinton árið 2009, áður hafði Gillibrand setið í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í tvö ár. Gillibrand er lögfræðingur að mennt og útskrifaðist úr lagadeild Kalíforníuháskóla (UCLA) árið 1991.

Gillibrand er sjötta konan og sjötti öldungadeildarþingmaðurinn til að sækjast eftir tilnefningu demókrata til að kljást við Donald Trump í nóvember 2020. Gillibrand tilkynnti ákvörðun sína í tveggja mínútna löngu myndbandi sem bar titilinn „Hugrekkið vinnur“ (e. Brave Wins)

Hugrekki etur fólki ekki hvort gegn öðru, Hugrekki forgangsraðar ekki peningum ofar mannslífum. Hugrekki dreifir ekki hatri, felur sannleikann eða reisir múr. Óttinn gerir það“ sagði Gillibrand í myndbandi á meðan myndefni, meðal annars af Trump forseta, var sýnt.

Gillibrand tilkynnti undir lok myndbandsins að hún byði sig fram og hvatti stuðningsmenn sína til að mæta á framboðsfund hennar sem fram færi við Trump International hótelið 24. mars næstkomandi.


Tengdar fréttir

Bernie Sanders býður sig fram til forseta á ný

Bernie Sanders, óháður öldungardeildarþingmaður og sá sem lenti í öðru sæti í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2016, mun bjóða sig á ný fram til forseta í forkosningum Demókrata sem framundan eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×