Lífið

Margrét Gnarr var orðin 46 kíló og þunglynd: "Hún sá fyrir sér að ég væri að deyja“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Margrét Gnarr opnar sig um átröskun í Íslandi í dag.
Margrét Gnarr opnar sig um átröskun í Íslandi í dag.
Margrét Edda Gnarr hefur getið sér gott orð í líkamsræktarheiminum. Hún hefur þó gengið of langt á tímum og þarf að hafa sig alla við til að fara ekki út í öfgar. Margrét var gestur í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gær en saga hennar hefst þegar hún byrjaði í skóla í fyrsta bekk. Hún varð fyrir einelti vegna útlits, rauða hársins og frekna.

„Ég skildi ekki af hverju krakkar voru svona andstyggileg við mig. Ég byrjaði þá að fá svona hugmynd um að ef ég myndi líta einhvern veginn öðruvísi út þá yrðu allir meira næs,“ segir Margrét.

Hún eignaðist þó eina vinkonu sem hún leit mjög svo upp til. Sú var ljóshærð og kát og sæt eins og Margrét orðar sjálf.

„Ég hugsaði með mér ef ég liti kannski meira út eins og hún yrði allir rosa næs við mig. Ég var mjög trúuð á þessum tíma og fór alltaf með faðir vorið áður en ég fór að sofa með mömmu minni en svo þegar mamma fór var ég með mína eigin bæn þar sem ég bað guð um að breyta hárlitnum mínum því ég vildi vera svona ljóshærð eins og vinkona mín. Ég trúði alveg innilega að hann myndi gera þetta fyrir mig og hljóp alltaf inn á baðherbergi næsta dag og varð alltaf fyrir miklum vonbrigðum,“ segir Margrét en eineltið varð alltaf verra og verra og sjálfstraustið því minna og minna.

Á þessum tíma horfði Margrét mikið á MTV og þá sérstaklega á Britney Spears og Christina Aguilera, þráði ljósa hárið þeirra og hélt að ef hún líktist þeim meira yrði hún samþykkt. Fókusinn fór ekki bara í þetta heldur einnig í íþróttir enda kraftmikið barn.

Margrét var orðin 46 kíló.
Hún byrjaði að æfa listdans á skautum og var mjög efnileg.

„Þegar ég var í kringum ellefu, tólf ára byrjaði ég að fara í gegnum breytingarskeiðið og ég man bara eftir því hvað ég fékk ótrúlega mikla matarlyst. Ég var farin að stela pening úr vösunum hjá mömmu til að geta farið út í sjoppu til að geta keypt mér nammi og ég þyngdist mjög hratt á þessum tíma, eins og mjög margar stelpur gera á þessu viðkvæma tímabili,“ segir Margrét en þarna varð eineltið lúmskara með árunum og töluvert verið að skilja hana út undan.

Þarna vildi hún ekki mæta meira í skólann og því ákvað móðir hennar að færa hana um skóla þegar hún var hálfnuð með áttunda bekk. Ástandið batnaði varðandi eineltið en skaðinn var skeður og hún var brotin, óörugg og alltaf í vörn. Hún hætti að æfa skauta eftir meiðsli og skipti yfir í Taekwondo með vinkonu sinni.

„Ég elskaði að fara á æfingar og vildi bara vera í þessu umhverfi. Ég byrjaði í klúbbi hérna í Reykjavík og æfði þrisvar í viku,“ segir Margrét en þar sem hún þótti það góð fékk hún að æfa mun oftar í viku og var í raun alltaf á æfingu.

„Ég léttist mjög hratt án þess að taka eftir því og þá byrjaði fólk rosalega mikið að hrósa mér fyrir það hvernig ég liti út. Ég tengdi þetta tvennt saman og hugsaði ef ég borða bara lítið þá mun ég léttast enn meira. Þarna voru krakkar farnir að bjóða mér með í partý sem gerðist aldrei.“

Einn daginn fékk fjölskyldan sjokk þegar Margrét mætti í barnaafmæli.
Margrét borðaði því alltaf minna og minna og varð alltaf mjórri og mjórri. Að lokum lét þjálfari hennar vita að þetta gengi ekki lengur. Þá var Margrét orðin máttlaus og reyndi að losa sig við allt það litla sem hún lét ofan í sig og var orðin þunglynd.

„Öll mín unglingsár var ég rosalega mikið í anorexíu og komst á minn botn árið 2011 þegar ég fór niður í 46 til 47 kíló. Þegar ég keypti mér föt þurfti ég að fara í barnadeildina. Ég einangraði mig frá fjölskyldu og vinum í einhverja nokkra mánuði. Það eina sem ég hugsaði um var að verða mjórri og mjórri og langaði rosalega mikið að geta náð utan um upphandlegginn á mér og reyna komast í minni buxur.“

Margrét fann fyrir hjartsláttatruflunum og það hræddi hana. Í afmæli litla bróður hennar, eftir að hafa ekki séð fjölskylduna í nokkurn tíma kom svo sjokkið.

„Það voru allir bara mjög áhyggjufullir á svipinn og eftir afmælið hringir mamma mín í mig og sagði mér að systir mín hefði gjörsamlega brotnað niður eftir þessa heimsókn mína því hún sá fyrir sér að ég væri að deyja.“

Margrét segir að þá fyrst hafi hún viljað snúa við blaðinu. Hún byrjaði að borða meira, setti sér æfingaplan og allt gekk betur. Hún viðurkennir þó að það hafi verið erfitt að sjá kílóunum fjölga.

Margrét fór að stunda vaxtarækt.
„En á móti fannst mér mjög gaman að verða sterkari. Ég byrjaði að mæta þrisvar sinnum í viku í ræktina og fór svo að mæta fimm til sex sinnum. Það eina sem mig langaði var að verða sterkari,“ segir Margrét sem kynntist þarna fitness.

„Ég leit á þetta sem tækifæri til að hjálpa mér í mínum bata,“ segir Margrét sem fór að ganga vel á mótum.

„Með hverju móti fór ég að verða strangari og strangari á matarræði mínu. Seinustu ár hafa verið þannig að ég var aftur komin á þann stað sem ég var á árið 2011.“

Margrét fann á ný fyrir hjartsláttastruflunum og vissi að hún væri á rangri leið.

„Þarna var ég orðin svona 55 kíló en með miklu meiri vöðvamassa. Ég fór að sjá fyrir mér ungar stelpur að skoða myndir á Instagram þegar ég var í keppnisformi og að þær hugsi með sér að þurfa líta svona út til að fá marga fylgjendur á Instagram. Ég eyddi öllum þeim myndum og fór að einblína á það að ná bata og vera góð fyrirmynd,“ segir Margrét sem er í dag um 65 kíló.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.