Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um 150 bíla á Reykjanesbraut við Innri-Njarðvík í gærkvöldi. Um var að ræða hefðbundið umferðareftirlit að því er fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum. Aðeins einn þeirra ökumanna sem lögregla stöðvaði reyndist vera sviptur ökuréttindum en aðrir með gild ökuréttindi.
Undanfarna daga hafa á annan tug ökumanna verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Sá sem ók hraðast mældist á 151 kílómetra hraða. Einn ökumaður var grunaður um ölvunarakstur og þá voru skráningarnúmer fjarlægð af sex bifreiðum sem voru óskoðaðar og tveir óku án ökuréttinda.
