Franski landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps segir ljóst að hans menn þurfi að vera á tánum til að fá eitthvað úr leiknum gegn Íslandi á morgun, er liðin mætast á Stade de France í undankeppni EM 2020.
Síðast þegar liðin mættust, í vináttulandsleik í október síðastliðnum, komust Íslendingar í 2-0 forystu en tvö síðbúin mörk hjá Frökkum tryggðu þeim jafntefli.
„Það var engin afsökun að þetta hafi verið vináttulandsleikur. Íslendingar voru mjög ákveðnir í þeim leik og spiluðu vel. Við gerðum það ekki,“ sagði Deschamps við blaðamenn í dag.
„Ég vissi þá að Ísland væri með gott lið og ég veit að það sama á við á morgun. Við ætlum okkur að spila betur á morgun og þurfum að gera það til að vinna.“
„Það er í DNA Íslendinga að gefast aldrei upp. Þeir berjast fram á síðustu stundu. Við þurfum að vera tilbúnir fyrir það.“
Deschamps segir að leikmenn viti vel hvað er í húfi og að leikurinn á morgun sé í allt öðru samhengi en vináttulandsleikur. „Þetta verður allt öðruvísi leikur hjá okkur. Við vitum af hverju við erum hér.“
Frakkar slógu Íslendinginga úr leik í 8-liða úrslitum á EM 2016, á sama leikvangi og liðin mætast á á morgun.
„Það eru þrjú ár síðan síðan þá leikur var og margt hefur breyst,“ sagði Deschamps. „En Ísland hafði komið mörgum á óvart þá með góðri frammistöðu sinni. Við höfðum tíma til að skoða þeirra leik og meta þeirra styrkleika - sem voru sérstaklega aukaspyrnur og innköst. Þessi atriði höfðu valdið öðrum liðum erfiðleikum,“ bætti hann við.
„Ísland er enn með marga af sömu leikmönnunum og spiluðu þá og það á einnig við um okkur. Íslendingar spila aðeins öðruvísi í dag, eru ekki jafn beinskeyttir fram á við og nota ef til vill framherjana öðruvísi núna.“
Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.
Deschamps: Íslendingar gefast aldrei upp

Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur Hamrén
Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í París í dag.