Fótbolti

Þjálfari Andorra: Við munum verjast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Andorra skrifar
Koldo Álvarez er til vinstri. Hægra megin er fyrirliðinn Ildefons Lima.
Koldo Álvarez er til vinstri. Hægra megin er fyrirliðinn Ildefons Lima. Vísir/E. Stefán
Koldo Álvarez, landsliðsþjálfari Andorra, sagði á blaðmannafundi liðsins á þjóðarleikvangi Andorra í dag að markmið liðsins fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun væri einfalt.

„Hitt liðið verður meira með boltann. En við höfum spilað vel á heimavelli og okkur líður vel. Við munum verjast,“ sagði þjálfarinn. „Við munum reyna að halda góðri einbeitingu og spila af ákefð og reyna að halda áfram að ná góðum úrslitum.“

Andorra spilaði sex leiki í Þjóðadeild UEFA í haust og þrátt fyrir að liðið vann engan þeirra náði það fjórum jafnteflum. Sérstaklega hefur liðinu vegnað vel á heimavelli, eins og Álvarez bendir á.

„Við vitum við hverja við erum að fara að spila. Ísland er með mjög sterkt lið á evrópska vísu. Íslendingar spila góða knattspyrnu og úrslit liðsins í Þjóðadeildinni í haust gefa ekki rétt mynd af gæðunum. Þeir hefðu átt að ná betri úrslitum og það má benda á það að Ísland gerði jafntefli við Frakkland í vináttulandsleik.“

Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, gagnrýndi á blaðamannafundi fyrr í dag að leikið væri í undankeppni stórmóts á gervigrasi.

„Þetta eru reglur UEFA. UEFA segir að það megi spila á gervigrasi, þetta er völlurinn sem við eigum og þarna verður spilað. Ég myndi gjarnan vilja að við ættum grasvöll við bestu mögulegu aðstæður. En þetta er staðan og við munum ekki eyða tíma í þetta.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×