Fótbolti

Draumabyrjun Matthíasar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tveggja marka maðurinn Matthías.
Tveggja marka maðurinn Matthías. vísir/getty
Matthías Vilhjálmsson skoraði bæði mörk Vålerenga sem vann 2-0 sigur á Mjondalen í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Þetta var fyrsti deildarleikur Matthíasar með Vålerenga en hann gekk í raðir liðsins frá Rosenborg í vetur. Bæði mörkin komu eftir undirbúning Sams Adekugbe.

Dagur Dan Þórhallsson sat allan tímann á varamannabekk Mjondalen sem er nýliði í deildinni.

Fimm Íslendingar komu við sögu í leik Start og Aalesund. Aalesund vann 0-1 sigur í þessum fyrsta leik tímabilsins í norsku B-deildinni.

Aron Elís Þrándarson, Daníel Leó Grétarsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru í byrjunarliði Aalesund en Davíð Kristján Ólafsson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Start og Kristján Flóki Finnbogason kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik.

Gísli Eyjólfsson og Óttar Magnús Karlsson byrjuðu inn á hjá Mjällby sem tapaði 0-1 fyrir Varbergs í 1. umferð sænsku B-deildarinnar. Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings R. og Breiðabliks, stýrir Mjällby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×