Þjálfari og einn varnarmaður Juventus þóttu sýna afar forneskjulegt viðhorf eftir leik Juve og Cagliari er þeir sögðu að leikmaður Juve, Moise Kean, hefði að hluta til átt sök á því að hann varð fyrir kynþáttaníði í leik liðanna.
Ummæli þeirra Massimiliano Allegri þjálfara og Leonardo Bonucci fóru illa ofan í heimsbyggðina og þóttu sýna eina af ástæðunum fyrir því af hverju það gengur svona illa að uppræta kynþáttaníð á Ítalíu.
Ítölsk stjórnvöld og knattspyrnuyfirvöld hafa margoft verið gagnrýnd fyrir linkind gagnvart rasistum á fótboltavellinum og því kemur nokkuð á óvart að sjá landsliðsþjálfara þjóðarinnar, Roberto Mancini, stíga fram fyrir skjöldu í þessu máli.
„Þetta getur ekki haldið svona áfram. Við þurfum aðgerðir og það harðar aðgerðir,“ sagði Mancini reiður.
„Meira að segja á Englandi eru menn ljósárum á undan okkur í þessari baráttu. Við þurfum að gera miklu meira til þess að uppræta þennan vanda.“

