Forstjóri Icelandair Group segir samkomulag um ríflega fimm milljarða króna fjárfestingu erlendra aðila í félaginu vera sögulegt. Bandarískur fjárfestingarsjóður mun eignast rúmlega ellefu prósent í Icelandair. Aldrei áður hefur erlent félag átt svo stóran hlut í flugfélaginu.
Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management hefur gert bindandi samkomulag um að kaupa 11,5% hlut í Icelandair Group. Fyrirvari er um samþykki hluthafa Icelandair. Eftir kaupin verður sjóðurinn annar stærsti hluthafi félagsins.
„Það hefur aldrei erlendur aðili átt svona stóran hlut í Icelandair Group þannig að það er sögulegt hvað það varðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Eitt prósent af eignasafni sjóðsins
Fjárfesting PAR Capital í Icelandair nemur ríflega einu prósenti af eignasafni sjóðsins en hann er með um fjóra milljarða bandaríkjadala í stýringu, sem nemur tæpum 500 milljörðum íslenskra króna.Fjárfestingarsjóðurinn hefur fjárfest í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum. Hann á hluti í bókunarfyrirtækinu Expedia, í flugfélögunum United, Jetblue, Delta, Alaska Air og Southwest Airlines. Sjóðurinn á hluti í bílaleigunum Herts og Avis - og í Trip Advisor og Facebook.

Gerðist mjög hratt
„Það er mjög gott að fá fjölbreyttari hóp fjárfesta að félaginu, við höfum unnið að því í einhvern tíma. Þetta er mjög mikið styrkleikamerki fyrir okkur og fyrir íslenskt umhverfi líka,“ segir Bogi Nils og bætir við að félagið hafi ekki markvisst sóst eftir erlendum fjárfestum.„Þetta gerðist mjög hratt síðustu daga og gekk mjög vel. Það var mjög ánægjulegt að þetta skyldi klárast í nótt,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Hann segir að fyrirhuguð kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins tengist ekkert tvennum viðræðum Icelandair um hugsanlega aðkomu félagsins að rekstri WOW air.