Arnór Ingvi Traustason lagði upp mark Malmö þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Häcken í 1. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Á upphafsmínútu seinni hálfleiks átti Arnór fyrirgjöf frá vinstri á Marcus Antonsson sem skoraði með viðkomu í varnarmanni.
Níu mínútum síðar fékk Malmö vítaspyrnu sem Antonsson klúðraði. Það átti eftir að reynast dýrt því Häcken jafnaði á 76. mínútu.
Viðar Örn Kjartansson lék allan leikinn í framlínu Hammarby sem gerði 1-1 jafntefli við Elfsborg. Þetta var fyrsti leikur Viðars fyrir Hammarby.
Kjartan Henry Finnbogason var í byrjunarliði Velje og lék allan leikinn þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við AGF í dönsku úrvalsdeildinni. Jöfnunarmark AGF kom í uppbótartíma.
Arnór Smárason var ekki í leikmannahópi Lilleström sem gerði 1-1 jafntefli við Stabæk í norsku úrvalsdeildinni.
