Innlent

Aðstæður oft verri en spáin

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Dýpkun hófst aftur í Landeyjahöfn í dag en undanfarna (LUM) daga hefur ekki reynst unnt að dýpka í eða við höfnina sökum veðurs.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar gagnrýndi verktakafyrirtæki sem sér um verkið fyrir að hafa ekki hafist handa í gær þegar aðstæður voru ákjósanlegar en opnun hafnarinnar er rúmum mánuði á eftir áætlun miðað við síðasta ár.

Undanfarið hefur mikil ölduhæð og vont veður gert erfitt fyrir en starfsmenn náðu að fjarlægja sextán þúsund rúmmetra af efni úr höfninni í síðustu törn sem gefur vonir um að hægt verði að opna siglingarleiðina fljótlega.

„Áætlunin var þannig að Vegagerðin ætlaði að mæla núna fyrri partinn í dag. Því var flýtt um einn sólarhring en okkar menn og búnaður er kominn á staðinn núna og fara á fullt í það að vinna sín verk. Mér sýnist nú að þetta sé ekkert rosalegt magn sem að þurfi til þess að opna fyrir Herjólf. Svo er bara spurning hversu langur gluggi þetta verður og hversu aðstæður verða góðar. þetta hefur líka oft verið þannig að spáin hefur verið mun betri heldur en aðstæður eru í raun á staðnum því menn verða auðvitað líka að gæta flóðs og fjöru. Veðurfarslega séð hefur þetta verið mjög sérstakt,“ segir Lárus Dagur Pálsson, framkvæmdastjóri Björgunar.

Hvernig svarið þið gagnrýni Vegagerðarinnar um samningsbrot, að hafa ekki verið farnir af stað fyrr?

„Ég er algjörlega ósammála því, ég tel svo alls ekki vera,“ segir Lárus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×