Gestum Bláa lónsins fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem ferðaþjónusturisinn fær færri gesti til sín en árið á undan. Þetta staðfestir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, í samtali við Markaðinn.
„Við fundum fyrir fækkun í fjölda ferðamanna í apríl eins og aðrir í greininni. Ég myndi halda að þetta sé í fyrsta skiptið í sex eða sjö ár sem greinin er að sjá svona fækkun á milli ára,“ segir Grímur en bætir við að bókunarstaðan fyrir sumarið sé góð.
Erlendum ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 18,5 prósent í apríl miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Grímur segir að aprílmánuður hafi verið óvenjulegur þar sem miklar sviptingar hafi verið í fluggeiranum og nefnir hann í því samhengi fall WOW air, kyrrsetningu Boeing MAX-vélanna og verkfallið hjá SAS.
„Síðan voru tveir dagar í apríl þar sem allt var á öðrum endanum í Leifsstöð vegna óveðurs. Það má segja að þetta hafi allt lagst á eitt,“ segir Grímur. Þá sé jákvætt að búið sé að eyða óvissu á vinnumarkaði og óvissunni í kringum WOW air. Miðað við stöðuna í byrjun árs sé útlit fyrir prýðisár í ferðaþjónustu.
Tekjur Bláa lónsins, eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins, námu um 15,5 milljörðum króna frá 6. febrúar til 31. desember í fyrra. Hagnaður félagsins var ríflega 2,6 milljarðar króna á tímabilinu.
Viðskipti innlent