Enski boltinn

Maurizio Sarri: Fullkomlega eðlilegt að vera með Eden Hazard á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard.
Eden Hazard. Vísir/Getty
Eden Hazard var ekki í byrjunarliði Chelsea í gær í fyrri undanúrslitaleik liðsins í Evrópudeildinni en með sigri í keppninni getur Chelsea tryggt sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Knattspyrnustjórinn Maurizio Sarri var spurður út í þessa ákvörðun sína eftir leikinn í gærkvöldi en Chelsea gerði þá 1-1 jafntefli á móti þýska liðinu Eintracht Frankfurt.

„Það er fullkomlega eðlilegt að leikmaður sem spilar 70 leiki á tímabili byrji stundum á bekknum,“ sagði Maurizio Sarri. Hann ákvað að hvíla sinn besta leikmann í leiknum í gær.

„Við spilum aftur eftir aðeins 62 klukkutíma,“ sagði Maurizio Sarri en hann talaði líka um það að Eden Hazard hafi ekki fengið að vita það fyrirfram að hann myndi ekki byrja leikinn.

Fjölmiðlar hafa skrifað mikið um það að Eden Hazard fari frá Chelsea í sumar en hann hefur verið stanslaust orðaður við spænska stórliðið Real Madrid.





„Hann tók þessu vel, var eins og hann er vanur og grínaðist í liðsfélögum sínum. Hann veit um hvað þessa snýst,“ sagði Maurizio Sarri um viðbrögð Eden Hazard við því að missa af þessum mikilvæga leik.

Chelsea getur líka tryggt sér sæti í Meistaradeildinni í gegnum ensku úrvalsdeildina en þar er liðið í baráttunni um eitt af fjórum efstu sætunum.

„Við erum að fara spila fimm leiki á tveimur vikum og þeir eru allir jafnmikilvægir. Við vitum ekki enn hvar leið okkar liggur. Við viljum bæði komast í Meistaradeildina og vinna Evrópudeildina,“ sagði Sarri.

„Við viljum ekki aðeins komast í úrslitaleikinn því við viljum vinna hann líka. Fyrir þremur mánuðum þá vorum við í vandræðum. Nú erum við meðal fjögurra efstu liðanna í deildinni og komnir í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Mér finnst við eiga skilið að vinna bikar,“ sagði Sarri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×