Skoðun

Ljón á vegi blómlegrar verslunar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Athygli vakti í liðnum mánuði þegar breska verslanakeðjan Debenhams, sem var stofnuð fyrir ríflega 240 árum, fór í greiðslustöðvun og var í kjölfarið tekin yfir af kröfuhöfum sem hyggjast draga verulega úr umsvifum keðjunnar. Á sama tíma greindi ráðgjafarfyrirtækið Coresight frá því að bandarískir smásalar hefðu í hyggju að loka allt að sex þúsundum verslunum í ár sem yrðu þá 2,2 prósent fleiri verslanir en í fyrra.

Allt ber að sama brunni. Á sama tíma og netverslun stóreykst berjast rótgrónar verslanakeðjur í bökkum. Gjörbreytt samkeppnisumhverfi – með aukinni netverslun, minna trausti neytenda og breyttri hegðun nýrrar aldamótakynslóðar – hefur leitt til þess að hefðbundnar verslanir hafa þurft að leita leiða til þess að hagræða í rekstri, draga saman seglin og laga sig að breyttum veruleika. Að öðrum kosti blasir gjaldþrot við, eins og eigendur Claire’s, Sears og Toys R Us, svo dæmi séu nefnd, hafa fengið að kenna á. Ris Amazon, eins verðmætasta fyrirtækis heims, er hin hliðin á sama peningi.

Íslenskar verslanir hafa vitaskuld ekki farið varhluta af þessari þróun. Stærsta smásölufyrirtæki landsins, sem rak á sínum tíma Topshop, Debenhams, All Saints, Day, Coast og Dorothy Perkins, hefur til að mynda dregið verulega úr fataverslun á umliðnum árum. Verslun víða í miðborginni á jafnframt undir högg að sækja og standa mörg verslunarrými þar á besta stað nú auð.

Þessi hraða þróun – sú breyting sem er að verða á verslunarmynstri fólks – er ein helsta áskorunin sem íslenskir verslunareigendur standa frammi fyrir um þessar mundir, fremur en göngugötur og skortur á bílastæðum, eins og stundum mætti halda af umræðunni.

Fyrir utan þá staðreynd að nær hvergi í evrópskum miðborgum er eins mikið af niðurgreiddum bílastæðum og miðsvæðis í Reykjavík hefur umferð um miðborgina stóraukist frá því sem áður var. Reykvísk borgaryfirvöld mættu í því sambandi líta til miðborga í evrópskum stórborgum, til dæmis Kaupmannahöfn og Ósló, þar sem markvisst er verið að þrengja að einkabílnum og auka þess í stað rými fyrir gangandi.

Um leið mættu reykvískir stjórnmálamenn taka skattastefnu borgarinnar til gagngerrar endurskoðunar en þau himinháu fasteignagjöld sem hún leggur á verslunarhúsnæði í miðborginni eru vafalaust einn helsti þröskuldurinn í vegi þess að verslun þar blómgist og dafni. Engum dylst að miðað við arðsemi fasteignafélaganna eiga þau ekki annarra kosta völ en að velta tugprósenta hækkunum á fasteignagjöldum út í leiguverð – verslunarfyrirtækjum til tjóns.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×