Skoðun

Ha, ég?! 

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Ég hef áður sagt að siðanefnd Alþingis hafi í raun engan tilgang. Það erum við kjósendur sem dæmum um það hvort þingmenn eru siðlegir eða ekki.

En nú er siðanefndin búin að úrskurða í málum nokkurra þingmanna. Kynferðisleg áreitni þingmanns Samfylkingarinnar er ekki brot á siðareglum en Þórhildur Sunna, þingflokksformaður Pírata, braut gegn siðareglum þingsins.

Rökstuðningur siðanefndarinnar er meðal annars sá að með því að staglast á orðunum „rökstuddur grunur“ hafi píratinn ranglega gefið í skyn að fyrir lægju gögn sem bentu sterklega til sektar samþingmanns hennar. Allt hugsandi fólk veit nefnilega hvað rökstuddur grunur merkir. Hugtök hafa merkingu en auðvitað er mjög freistandi að nota þau eftir hentugleika til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína. Popúlistar hagnast mjög á því að orð og hugtök missa merkingu sína því þar með hverfur rökræðan.

Píratanum finnst hún megi nota sinn skilning á þessu hugtaki en aðalatriðið virðist vera að Þórhildi Sunnu þykir málstaður sinn svo góður að það er fráleitt að áminna hana. Hið fyrra má afgreiða sem barnaskap en hið síðara er alvarlegra. Það er sú hugsun að tilgangurinn helgi meðalið. Þar sem málstaður hennar er svo góður þá má hún brjóta gegn samþingsmanni sínum. Vottur af iðrun og lítillæti virtist víðs fjarri þingflokksformanni Pírata og röksemdir siðanefndarinnar lætur hún sem vind um eyru þjóta.

En það skemmtilega í málinu er að nú getum við hlakkað til að sjá úrvinnslu siðanefndarinnar á orðavaðlinum á Klaustri. Hvaða orð sem þar voru sögð falla undir málfrelsi þingmanna og hvaða orð gera það ekki? Gæti orðið gagnlegur listi!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×