Björgvin Páll Gústavsson, Tandri Már Konráðsson og félagar í Skjern tryggðu sér sæti í undanúrslitunum um danska meistaratitilinn í handbolta með stórsigri á Sönderjyske í Íslendingaslag. Janus Daði Smárason átti góðan leik fyrir Álaborg sem tapaði fyrir Holstebro.
Lokaumferð úrslitariðlanna tveggja í dönsku úrvalsdeildinni fór fram í kvöld, en efstu tvö liðin í hvorum riðli fara áfram í undanúrslit.
Álaborg var búið að tryggja sig áfram í undanúrslitin fyrir leikinn en Holstebro átti möguleika á að taka undanúrslitasæti af Skjern. Holstebro gerði sitt og vann 29-28 sigur á Álaborg, en þar sem Skjern vann Sönderjyske dugði það ekki til.
Janus Daði var markahæstur í liði Álaborgar, ásamt Henrik Möllgaard, með sex mörk. Hann átti þar að auki þrjár stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og lagði upp tvö. Vignir Svavarsson komst ekki á blað fyrir Holstebro.
Skjern vann stórsigur á Sönderjyske 39-22. Tandri Már Konráðsson skoraði fjögur marka Skjern og Björgvin Páll Gústavsson varði 4 skot af 16. Arnar Birkir Hálfdánsson gerði þrjú mörk fyrir Sönderjyske.
Álaborg endar á toppi riðilsins með átta stig, líkt og Skjern og fara bæði í undanúrslit.
Í hinum riðlinum tryggði Bjerringbro-Silkeborg sér undanúrslitasæti með eins marks sigri á GOG 28-29. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt mark fyrir GOG.
GOG endaði þrátt fyrir tapið á toppi riðilsins. GOG mun því mæta Skjern í undanúrslitunum og Álaborg spilar við Bjerringbro-Silkeborg.
Handbolti