Erlent

Rannsókn á nauðgunarmáli Assange opnuð aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari, tilkynnti um að mál Assange hefði verið opnað aftur í morgun.
Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari, tilkynnti um að mál Assange hefði verið opnað aftur í morgun. Vísir/EPA

Saksóknarar í Svíþjóð hafa opnað aftur rannsókn á ásökunum gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks, um nauðgun. Lögmaður konu sem sakar Assange um nauðgun fór fram á að málið yrði tekið upp aftur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.



„Það er enn rökstuddur grunur um að herra Assange hafi framið nauðgun,“ sagði Eva-Marie Persson, vararíkissaksóknari Svíþjóðar, þegar hún tilkynnti um ákvörðunina í morgun. 



Sænsk yfirvöld krefjast framsals Assange. Saksóknararnir segja að það þurfi að gerast hratt því meint brot hans fyrnist á næsta ári. Þörf sé á að yfirheyra hann.



Assange neitar sök. Saksóknarar létu málið falla niður eftir að hann neitaði að gefa skýrslu í Svíþjóð. Leitaði Assange meðal annars hælis í sendiráði Ekvadors í London og dvaldi þar í sjö ár til að komast hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar. Ekvadorsk stjórnvöld sviptu hann hæli í apríl.



Breskur dómstóll dæmdi Assange í fimmtíu vikna fangelsi fyrir að brjóta gegn skilmálum lausnar gegn tryggingu sem hann fékk áður en hann leitaði hælis í sendiráðinu.



Bandaríkjastjórn vill einnig fá Assange framseldan en hann er ákærður þar fyrir að hafa átt þátt í tölvuinnbrotinu sem kom fjölda leynilegra skjala Bandaríkjahers og utanríkisþjónustunnar í hendur Wikileaks árið 2010.


Tengdar fréttir

Assange dæmdur í 50 vikna fangelsi

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, var dæmdur í 50 vikna langt fangelsi í Bretlandi í dag fyrir að brjóta gegn skilyrðum þess er hann var látinn laus úr haldi lögreglu í Bretlandi árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×