Fótbolti

Evrópudeildin er í raun Emery-deildin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enn einn úrslitaleikurinn. Like á það.
Enn einn úrslitaleikurinn. Like á það. vísir/getty
Arsenal komst í gærkvöldi í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA í fótbolta með stæl þegar að liðið lagði Valencia, 4-2, á útivelli í seinni undanúrslitaleik liðanna en Skytturnar unnu einvígið samanlagt, 7-3.

Kevin Gameiro gaf heimamönnum von þegar að hann skoraði fyrsta mark leiksins á ellefu mínútu en Gabon-maðurinn Pierre-Emerick Aubameyang skoraði þrennu fyrir Arsenal og félagi hans í framlínunni Alexandre Lacazette skoraði eitt.

Það ætti í raun ekki að koma nokkrum manni á óvart að Arsenal sé komið alla leið í úrslitaleikinn því knattspyrnustjóri liðsins, Unai Emery, er með meira próf og svarta beltið í Evrópudeildinni. Hann hefur unnið keppnina þrisvar sinnum og er nú kominn í úrslitaleikinn í fjórða sinn.

Spánverjinn hefur náð ótrúlegum árangri í Evrópudeildinni en hann kom Valencia í átta liða úrslitin 2010 og í undanúrslitin 2012 áður en að hann tók við Sevilla.

Með Sevilla vann hann Evrópudeildina þrjú ár í röð frá 2014-2016 og nú, tveimur árum eftir síðasta sigurinn, er Emery mættur í úrslitaleikinn með Arsenal þar sem að liðið mætir nágrönnum sínum í Chelsea.

Leikurinn fer fram í Bakú í Aserbaídjan 29. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×