Íslenski boltinn

Yfirlýsing Þróttar vegna ummæla Björgvins: „Framkoman með öllu óásættanleg“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin er á sínu öðru tímabili hjá KR.
Björgvin er á sínu öðru tímabili hjá KR. vísir/vilhelm
Knattspyrnudeild Þróttar R. hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla sem Björgvin Stefánsson lét falla um leikmann liðsins í lýsingu á leik gegn Haukum í Inkasso-deild karla í gær.

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin um Archie Nkumu, leikmann Þróttar, í lýsingu á Haukar TV.



Björgvin baðst afsökunar á ummælum sínum í gærkvöldi.Þau gætu kostað hann fimm leikja bann. Framkvæmdastjóri KSÍ hefur heimild til að vísa málum sem skaða geta ímynd knattspyrnunnar til aga- og úrskurðarnefndar.

Bæði Haukar og KR hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem ummæli Björgvins eru hörmuð. Þróttur hefur nú líka sent frá sér yfirlýsingu.

Í yfirlýsingu Þróttar segir m.a. að framkoma Björgvins hafi verið með öllu óásættanleg og hana beri að taka alvarlega. Þróttarar treysta á að tekið verði á málinu í samræmi við alvarleika þess.

Yfirlýsing vegna ummæla í lýsingu leiks Hauka og Þróttar

Stjórn knattspyrnudeildar Þróttar fordæmir ummæli sem látin voru falla í gærkvöldi um leikmann Þróttar á HaukarTV í útsendingu á leik Hauka og Þróttar í Inkasso deild karla.

Framkoma annars lýsanda leiksins var með öllu óásættanleg og ber að taka alvarlega.

Knattspyrna er leikur án fordóma og fyrirlitning, mismunun og niðurlæging á grundvelli kynþáttar, litarhátts og stöðu að öðru leyti á sér engan stað í knattspyrnuhreyfingunni eða samfélaginu í heild.

Málið hefur verið sett í réttan farveg innan KSÍ.

Þróttur treystir því að tekið verði á málinu í samræmi við alvarleika málsins og þeir sem bera ábyrgð á ummælunum verði látnir sæta ábyrgð vegna þeirra.

Þróttur mun ekki tjá sig frekar um málið meðan að það er til umfjöllunar hjá KSÍ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×