Fótbolti

Sarri varakostur hjá Juve á eftir Pep eða Pochettino

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sarri náði í fyrsta titil ferilsins þegar Chelsea vann Evrópudeildina í vikunni
Sarri náði í fyrsta titil ferilsins þegar Chelsea vann Evrópudeildina í vikunni vísir/getty
Juventus vill fá Pep Guardiola eða Mauricio Pochettino sem næsta knattspyrnustjóra félagsins. Maurizio Sarri er aðeins varamöguleiki. Þetta segir sérfræðingur um ítalska boltann.

Massimiliano Allegri hætti sem stjóri Juventus fyrr í mánuðinum eftir að hafa verið við stjórnina í fimm ár og stýrt Juventus til Ítalíumeistaratitils öll árin.

Heimildir Sky Sports á Ítalíu segja Maurizio Sarri, sem stýrði Chelsea til sigurs í Evrópudeildinni í vikunni, vera efstan á óskalista Juventus og hann á að hafa sagt forráðamönnum félagsins að hann vildi fara í gær.

Adam Digby, sérfræðingur um ítalska boltann, segir Sarri hins vegar aðeins vera varakost hjá Juventus.

„Ég held ekki að Sarri fari til Juventus. Þeir sjá hann sem varakost,“ sagði Digby við Sky.

„Þeir eru að horfa á Pep Guardiola og Mauricio Pochettino. Þeir eru enn að reyna að landa öðrum þeirra, en halda Sarri opnum ef það gengur ekki.“

„Þess vegna gengur svona illa að losa Sarri undan samningi sínum hjá Chelsea, Juventus er ekki tilbúið til þess að standa upp og segjast borga upp samninginn.“

Pochettino og Guardiola mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í kvöld og Juventus gæti átt möguleika að næla í þann sem tapar þeim leik.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst upphitun klukkan 18:15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×