Leikstjórinn Franco Zeffirelli er látinn 96 ára að aldri. Leikstjórinn var tvívegis tilnefndur Óskarsverðlauna. BBC greinir frá.
Zeffirelli leikstýrði stjörnum á borð við Elizabeth Taylor í myndinni Taming of the Shrew árið 1967 og Judi Dench í uppfærslu á verkinu Rómeó og Júlía. Þá leikstýrði hann einnig kvikmynd um Rómeó og Júlíu þar sem Leonard Whiting og Olivia Hussey stigu sín fyrstu skref í leiklist árið 1968.
Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Zeffirelli hafi látist eftir illvígan sjúkdóm sem hafi farið hratt versnandi undanfarna mánuði.
Leikstjórinn sat einnig tvö kjörtímabil á ítalska þinginu fyrir Forza Italia flokk Silvio Berlusconi. Hann hafði einnig stundað nám í arkitektúr en sneri sér að leikhúsinu eftir að hafa séð uppfærslu Laurence Olivier á verkinu Henry hinn fimmti árið 1944.
