Svarið er að við verðum að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti til að knýja bílaflotann okkar áfram. Þess í stað þurfum við að nota endurnýjanlega orku. Annað er ósjálfbært. Við þurfum að ná orkuskiptum í vegasamgöngum. Við eigum þegar að baki álíka byltingu þegar við hættum að brenna kolum til að kynda upp húsin okkar og komum þess í stað upp hitaveitu. Bann við nýskráningum bensín- og dísilbíla árið 2030 er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og bílaorkuskiptin ganga raunar vel. Ísland er nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar nýskráningar rafbíla, auk þess sem stjórnvöld kynntu fyrr í vikunni aðgerðir sem skipta miklu til að tryggja að orkuskiptin gangi hratt og örugglega fyrir sig.
Fjárfesting upp á milljarð
Fjármagni verður veitt til uppbyggingar hraðhleðslustöðva um allt land, með áherslu á næstu kynslóð hleðslustöðva sem bjóða upp á mun styttri hleðslutíma en núverandi stöðvar gera. Mikilvægt er að koma upp þéttu neti af stöðvum til að koma í veg fyrir sóun og offjárfestingu fólks í stórum og langdrægum rafhlöðum. Einnig verður ráðist í sérstakt verkefni með ferðaþjónustunni, enda áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans hér á landi afar mikil. Tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi eru bílaleigubílar og lykilatriði að ná þar fram orkuskiptum, þar sem bílaleigubílar verða síðar að heimilisbílum landsmanna þegar þeir eru seldir á eftirmarkaði.Fram undan er síðan að fullvinna tillögur varðandi metan, vetni, lífeldsneyti, orkuskipti í almenningssamgöngum og fleiri mikilvæga þætti. Tilkynnt var um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta á árunum 2019-2020 en heildarfjárfestingin eingöngu af þessari fyrstu upphæð gæti slagað hátt í milljarð, enda er gert ráð fyrir mótframlögum við veitingu fjárfestingarstyrkjanna.
Við höfum allt hér á landi sem þarf til að vera í fararbroddi í heiminum í orkuskiptum í samgöngum.
Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra.