Innlent

Tyrk­nesk stjórn­völd óskuðu skýringa á meintum töfum á flug­vellinum

Sylvía Hall skrifar
Hér má sjá þegar þvottabursti var réttur framan í Emre Belozoglu á Keflavíkurflugvelli en leikmennirnir voru ekki sáttir við hve langan tíma tók að komast út af flugvellinum.
Hér má sjá þegar þvottabursti var réttur framan í Emre Belozoglu á Keflavíkurflugvelli en leikmennirnir voru ekki sáttir við hve langan tíma tók að komast út af flugvellinum. Vísir/Getty
Utanríkisráðuneytinu barst í morgun orðsending frá tyrkneskum stjórnvöldum þar sem óskað var skýringa á meintum töfum við vegabréfaeftirlit og öryggisleit við komu tyrkneska landsliðsins í gærkvöld. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þá er jafnframt vísað til fréttatilkynningar Isavia um framkvæmd vegabréfaeftirlits og öryggisleitar en þar kom fram að um áttatíu mínútur liðu frá því að vél tyrkneska landsliðsins kom í stæði og þar til síðustu farþegar voru komnir út um tollsal. Vélin kom frá flugvelli sem er ekki hluti af skilgreindu heildstæðu öryggissvæði sem gildir fyrir flugvelli í ESB og EES-ríkjum.

Sjá einnig: Segir viðbrögð tyrknesku leikmannanna við öryggisleit í Keflavík stórlega ýkt

Í tilkynningu frá Isavia kom fram að öryggisleitin í gærkvöldi hafi tekið lengri tíma þar sem leita þurfti að raftækjum og vökva í óvanalega mörgum töskum farþega með vélinni þar sem óskum um að slíkt væri fjarlægt úr töskum var ekki sinnt í öllum tilfellum. Sendiráð Tyrklands í Osló hafði óskað eftir hraðmeðferð liðsins í gegnum vegabréfaskoðun og öryggisleit fáeinum klukkustundum fyrir komuna. Fyrirvarinn var of skammur til þess að hægt væri að verða við beiðninni auk þess sem slík meðferð stendur yfirleitt aðeins ráðamönnum og háttsettum sendierindrekum til boða.

Utanríkisráðuneytið hefur áréttað við tyrknesk stjórnvöld að framkvæmd eftirlitsins á Keflavíkurflugvelli í gær hafi verið í samræmi við hefðbundið verklag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×