Erlent

Kanslarinn nötraði aftur í Berlín

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Angela Merkel sést hér halda handleggjunum þétt að sér, að því er virðist til að hafa heimil á skjálftanum.
Angela Merkel sést hér halda handleggjunum þétt að sér, að því er virðist til að hafa heimil á skjálftanum. Vísir/EPA
Angela Merkel kanslari Þýskalands fékk skjálftakast á viðburði í Berlín í morgun. Þetta er í annað skipti á átta dögum sem Merkel sést skjálfa eins og hrísla við opinber störf.

Merkel fékk fyrra skjálftakastið á fundi með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu í Berlín í síðustu viku. Þá vöknuðu strax áhyggjur af heilsufari kanslarans, og þeirra gætir aftur í kjölfar seinna skjálftakastsins nú.

Í myndbandi sem fréttaveitan Reuters birti í morgun má sjá Merkel við hlið Frank Walter Steinmeier forseta Þýskalands þar sem þau kynntu nýjan dómsmálaráðherra, Christine Lambrecht, við hátíðlega athöfn.

Merkel skelfur greinilega og heldur handleggjunum þétt að sér, að því er virðist til að hafa hemil á skjálftanum.

Talsmaður Merkel hefur tjáð erlendum fjölmiðlum í dag að ekkert ami að kanslaranum. Í fyrra skiptið rakti Merkel skjálftann sjálf til ofþornunar og sagðist líða afar vel eftir að hafa fengið sér nokkur vatnsglös.

Þess ber að geta að afar heitt er í Berlín um þessar mundir en methitabylgja gengur nú yfir Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×