Skoðun

Barnaverndaráætlun – nýr tónn og aukið fjármagn

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Ný fjögurra ára framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum var samþykkt á Alþingi fyrir þinglok. Þar kveður við nýjan tón á ýmsum sviðum enda er gert ráð fyrir 600 milljóna fjáraukningu til þess að byggja upp og þróa ný úrræði og þjónustu við börn. Unnið verður að því að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum.

Framkvæmdaáætlunin er liður í heildarendurskoðun í málefnum barna og mikilvægt skref í átt að því að skapa heildarsýn og samfellu í þeirri þjónustu og í þeim úrræðum sem standa börnum og foreldrum til boða. Hún er metnaðarfull og unnin í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila.

Eitt af meginmarkmiðunum er að koma fyrr að vanda barna. Rannsóknir sýna að börn sem verða fyrir áföllum eða búa við vanrækslu í æsku eru líklegri til að leiðast út af braut í lífinu. Þeim er jafnframt hættara við ýmsum sjúkdómum. Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið allt að koma þeim sem á þurfa að halda til hjálpar með gagnreyndum úrræðum – og það sem fyrst.

Til þess þarf að tryggja samstarf þeirra kerfa sem þjónusta börn og horfa á þjónustuna með heildstæðum hætti. Hagsmunir barna krefjast þess. Gera þarf kröfu um skýra ábyrgð og samþættingu þjónustu og úrræða og er mikill vilji fyrir því innan ríkisstjórnarinnar. Þá þyrfti í mörgum tilfellum að grípa miklu fyrr til aðgerða en þegar þröskuldur til inngripa á grundvelli barnaverndarlaga næst, en hann miðast við að börn búi við óviðunandi aðstæður eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu.

Það hefur verið gefandi að taka þátt í að móta ofangreinda framkvæmdaáætlun og verkefnið nú er að fylgja henni eftir af festu. Þessi framsækna áætlun sýnir að okkur er alvara þegar við segjumst ætla að gera betur fyrir börnin okkar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×