Erlent

Sameinuðust um að bjórsvelta nýnasista

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá samkomu nýnasista í Ostritz í apríl í fyrra. Þá fögnuðu þeir afmæli Adolfs Hitler, nasistaforingjans alræmda.
Frá samkomu nýnasista í Ostritz í apríl í fyrra. Þá fögnuðu þeir afmæli Adolfs Hitler, nasistaforingjans alræmda. Vísir/EPA
Íbúar þýska bæjarins Ostritz tóku höndum saman um að kaupa upp bjórbirgðir stórmarkaða bæjarins til að koma í veg fyrir að gestir á tónlistarhátíð nýnasista kæmust í kringum áfengisbann sem var lagt á hátíðina.

Lögreglan í Ostritz lagði hald á 4.200 lítra af bjór á föstudag og tvö hundruð til viðbótar á laugardag. Dómstóll í Dresden hafði lagt áfengisbann á hátíðina „Sverð og skjöldur“ sem hópur nýnasista stóð fyrir um helgina. Taldi hann augljóst að atburðurinn væri herskárr og hætta væri á að áfengisneysla yki líkurnar á ofbeldi.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC keyptu íbúar í Ostritz meira en tvö hundruð kassa af bjór í matvælaverslunum bæjarins til að koma í veg fyrir að nýnasistarnir gætu leitað þangað til að svala bjórþorsta sínum. Um tvö þúsund bæjarbúar komu einnig saman til að mótmæla öfgahægrimönnunum.

„Við vildum þurrka upp nasistana. Við hugsuðum að ef áfengisbann er yfirvofandi þá skulum við tæma hillurnar í stórmarkaðinum,“ segir Georg Salditt, einn skipuleggjenda aðgerðanna í Ostritz.

Um 500-600 manns eru sagðir hafa mætt á tónlistarhátíðina. Lögreglan var með mikinn viðbúnað en hátíðin er sögð hafa farið að mestu vel fram.

Ostritz er nærri landamærunum að Póllandi og er þekkt fyrir starfsemi hægriöfgamanna.


Tengdar fréttir

Grunaður morðingi Lübcke tengdur inn í öfga-hægri hópa

Maðurinn sem handtekinn var síðasta laugardag, grunaður um morðið á þýska stjórnmálamanninum Walter Lübcke, var dæmdur til fangelsisvistar árið 1993 vegna tilraunar hans til að sprengja rörasprengju fyrir utan athvarf hælisleitenda. Þá var hann handtekinn fyrir rúmum tíu árum í göngu öfga-hægri hópa í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×