Yfirmaður loftmáladeildar íranska byltingavarðarins heldur því fram að Íran hafi sent ítrekaðar viðvaranir til eftirlitsdróna bandaríska hersins áður en eldflaug var skotið á hann. Fréttastofa AP greinir frá þessu.
Hershöfðinginn Amir Ali Hajizadeh tilkynnti þetta í viðtali við íranska ríkissjónvarpið fyrr í dag. Hershöfðinginn lét jafnframt hafa eftir sér að því miður hafi engin svör borist frá drónanum við aðvörunum Írana. Flakið hafi nú verið fært á land.
Heraflar beggja ríkja hafa staðfest að bandaríski eftirlitsdróninn hafi verið skotinn niður yfir Hórmussundi. Bandaríski herinn segir að dróninn hafi verið í alþjóðlegri lofthelgi þegar hann var skotinn niður.
Spenna milli ríkjanna hefur farið vaxandi undanfarin misseri og hafa samskiptin harðnað enn frekar í kjölfar árásarinnar.

