Íslenski boltinn

KR-ingar bretta upp ermar fyrir stórleik kvöldsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það verður risaslagur á Meistaravöllum í kvöld þegar efstu lið Pepsi Max-deildarinnar, KR og Breiðablik, eigast við. Það er viðbúnaður í Vesturbænum enda reiknað með allt að fjögur þúsund áhorfendum á leikinn.

KR-ingar voru mættir í dag til þess að gera allt klárt fyrir stórleik kvöldsins og margir KR-ingar lögðu hönd á plóg.

„Það er loksins sem við erum með lið í toppbaráttu. Við vorum að ræða það áðan að það eru fimm ár síðan við vorum síðast að raða upp brettum,“ sagði Páll Kristjánsson, lögmaður og stjórnarmaður KR, sem var mættur til að taka til hendinni í gær er Guðjón Guðmundsson kíkti við.

„Við erum að horfa á það að það komi rúmlega þrjú þúsund manns. Það er langt síðan við fengum þá mætingu á völlinn en það stefnir allt í þá átt.“

„Það hefur verið eftirspurn eftir miðum í forsölu en það er enginn forsala. Menn mæta bara snemma og tryggja sér sæti á besta stað.“

Það hefur verið mikil stemning yfir KR-liðinu í sumar og tekur Páll undir það. Páll segir þó að stemningin í deildinni allri hafi ekki verið svona mikil lengi.

„Ég vil meina að það sé ekki búið að vera svona mikil stemning yfir Pepsi-deildinni ansi lengi. Það er mín skoðun að það haldist í hendur við gengi KR-liðsins.“

„Það er okkur að þakka að það sé svona mikil stemning og bjartsýni í kringum íslenskan fótbolta. Við höfum verið undir pari í fimm ár en við erum að rísa upp,“ sagði kokhraustur Páll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×