Erlent

Hóp­­nauðgun vekur upp deilur um lækkun sak­hæfis­aldurs í Þýska­landi

Sylvía Hall skrifar
Brotið átti sér stað í Mülheim í Þýskalandi.
Brotið átti sér stað í Mülheim í Þýskalandi. Vísir/Getty
Fimm drengir eru grunaðir um að hafa hópnauðgað átján ára gamalli konu í Mülheim í Þýskalandi á föstudag. Gerendurnir eru allir undir lögaldri, þrír þeirra fjórtán ára og tveir aðeins tólf ára gamlir. BBC greinir frá.

Konan fannst í runna seint á föstudag og var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Að sögn talsmanns lögreglunnar á svæðinu beittu drengirnir konuna ofbeldi og stóð árásin yfir í þónokkurn tíma. Drengjunum hefur verið vísað úr skóla og hefur einn nú þegar mætt fyrir rannsóknardómara í málinu.

Sakhæfisaldurinn í Þýskalandi er fjórtán ár og eru því tveir gerendurnir ósakhæfir.

Formaður sambands lögreglumanna, Rainer Wendt, segir sambandið hafa barist fyrir því í mörg ár að sakhæfisaldur sé lækkaður en formaður þýsku dómarasamtakanna gagnrýnir þær hugmyndir og segir þá jöfnu að harðari refsingar leiði til færri glæpa eiga ekki við um börn.

Sakhæfisaldur er misjafn milli Evrópuþjóða en barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir árið 2007 að sakhæfisaldur undir tólf árum myndi ekki vera „alþjóðlega samþykktur“.  

Lægsta sakhæfisaldurinn er að finna í Englandi, Wales og Norður-Írlandi þar sem hann er tíu ár en áður var hann lægstur í Skotlandi sem hækkaði aldurinn úr átta árum í tólf í maí síðastliðnum. Norðurlöndin miða við fimmtán ár alla jafna sem og Pólland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×