Erlent

Samkomulag í Súdan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fagnað í höfuðborginni Kartúm.
Fagnað í höfuðborginni Kartúm. Nordicphotos/AFP
Herforingjastjórnin sem hefur verið við völd í Súdan frá því Omar al-Bashir var steypt af stóli í apríl síðastliðnum komst í gær að samkomulagi við stjórnarandstöðuna í landinu um að fylkingarnar tvær muni deila völdum. Samkomulagið gildir til þriggja ára en í lok þess tímabils fara fram kosningar.

Samkomulaginu var fagnað innilega í Afríkuríkinu í gær. Að því er Reuters greinir frá hefur það vakið vonir landsmanna á ný eftir erfið átök og efnahagsörðugleika. „Við höfum unnið sigur gegn óréttlætinu. Markmið okkar er að ná fram frelsi og réttlæti og að finna ungu fólki störf. Vald í höndum almennra borgara og lýðræðið eru framtíð Súdans,“ hafði miðillinn eftir hinum 23 ára Shihab Salah.

Mótmælendahreyfingin hefur verið áberandi frá því í desember. Fyrst beindust mótmælin gegn fyrrnefndum forseta en síðar gegn herforingjastjórninni. Talið er að á þriðja hundrað hafi farist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×