Bandaríski tæknirisinn Apple ætlar sér að skipta út lyklaborðshönnuninni sem finna hefur mátt á MacBook-fartölvum frá árinu 2015. Þetta hafði tæknimiðillinn The Verge eftir greinandanum Ming-Chi Kuo. Síður á borð við 9to5Mac og MacRumors hafa sagt sömu sögu.
Hinn svokallaði fiðrildarofi (e. butterfly switch) sem hefur einkennt lyklaborðin er á útleið og segir The Verge það meðal annars vera vegna þess hversu óáreiðanlegir rofarnir eru. Ryk hafi ítrekað komist inn í rofana og þannig eyðilagt þá.
Apple baðst í maímánuði afsökunar á því hversu óáreiðanleg lyklaborðin eru. „Við erum meðvituð um að afmarkaður hópur notenda á í erfiðleikum með þriðju kynslóð fiðrildalyklaborða og biðjumst afsökunar á því,“ sagði í yfirlýsingu þar sem einnig sagði að flestir væru þó ánægðir með lyklaborðin.
