Innlent

Aðeins einn býðst til að bæta veginn til Borgarfjarðar eystra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá vegagerð um Njarðvík í síðustu viku en víkin er milli Vatnsskarðs og Borgarfjarðar.
Frá vegagerð um Njarðvík í síðustu viku en víkin er milli Vatnsskarðs og Borgarfjarðar. Vísir/Vilhelm.
Aðeins eitt tilboð barst í endurbætur á 8,8 kílómetra löngum kafla Borgarfjarðarvegar um Vatnsskarð eystra en tilboðsfrestur Vegagerðarinnar rann út í gær. Tilboðið er frá Héraðsverki á Egilsstöðum og hljóðar upp á 300,4 milljónir króna. Það reyndist 33% yfir áætluðum verktakakostnaði, sem er upp á 225,9 milljónir króna. 

Verkið er liður í uppbyggingu þjóðvegarins til Borgarfjarðar eystra og lagningu bundins slitlags þangað. Samkvæmt útboðslýsingu skal þessum verkhluta að fullu lokið fyrir 1. ágúst 2020. 

Héraðsverk vinnur þessa dagana að endurbyggingu 4,8 kílómetra kafla frá Ytri Hvannagilsá í Njarðvík og um Njarðvíkurskriður að Landsenda á Borgarfirði eystra. Þær framkvæmdir hófust í nóvemberlok í fyrra og á þeim að vera lokið fyrir 1. september í haust.

Gerð nýs vegar um Njarðvíkurskriður er langt komin en myndin var tekin í síðustu viku. Framundan er að klæða veginn bundnu slitlagi.Vísir/Vilhelm.
Þegar tilboð voru opnuð í Njarðvíkurskriðurnar í fyrrahaust átti Héraðsverks lægra boðið af tveimur, upp á 249 milljónir króna, eða 23% yfir 203 milljóna króna kostnaðaráætlun. Hitt tilboðið var frá Þ.S. verktökum á Egilsstöðum, upp á 286 milljónir króna, sem var 41% yfir kostnaðaráætlun. Vegagerðin samdi þá við Héraðsverk á grundvelli tilboðs þess. 

Íbúar Borgarfjarðar þrýstu á framkvæmdir með aðgerðum sem vöktu landsathygli í fyrra, hófu sjálfir að steypa veginn um Njarðvíkurskriður og söfnuðu síðan undirskriftum frá 2.500 Austfirðingum, sem afhentar voru samgönguráðherra. Þegar þessum tveimur verkum lýkur verður eftir aðeins einn malarkafli á leiðinni milli Egilsstaða og Bakkagerðis, 14 kílómetra kafli um Hjaltastaðaþinghá norðan Eiða. 

Íbúar Borgarfjarðar eystri eru nú 77 talsins, samkvæmt manntali Hagstofunnar. Af þeim eru aðeins þrjú börn yngri en 18 ára.

Dyrfjöll gnæfa yfir Borgarfirði eystra.Vísir/Vilhelm.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×