Þetta er á meðal þess sem kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í júní. Þurrkakaflinn á Suður- og Vesturlandi hafi verið óvenjulangur. Síðustu dagar maímánaðar hafi einnig verið þurrir þar og því hafi þurrkurinn víða verið óslitinn í hátt í fjórar vikur.
Í Stykkishólmi var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní, alls 37 daga. Það er tveimur dögum lengur en fyrra met sem sett var vorið 1931. Þurrkurinn er sá lengsti frá því að mælingar hófust árið 1856. Úrkoman í Stykkishólmi í júní nam 12,3 millímetrum, aðeins um 30% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990.
Í Reykjavík mældist úrkoma 29,5 millímetrar í júní sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma mældist einn millímetri eða meiri fimm daga í júní, sex færri en í meðalári.
Á Akureyri rigndi enn minna, 14,3 millímetrar sem eru um helmingur af meðalúrkomu sömu ára. Aðeins fjórum sinnum var úrkoma einn millímetri eða meiri. Á Höfn var einnig sérstaklega þurrt. Þar mældist úrkoman aðeins 7,2 millímetrar og aðeins tveir úrkomudagar.

Yfir 142 fleiri sólskinsstundir í Reykjavík en vanalega
Mánuðurinn var einnig sérlega sólríkur, sérstaklega á sunnan- og vestanverðu landinu. Í Reykjavík mældust 303,9 sólskinsstundir sem er 142,6 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Aðeins fjórum sinnum hafa fleiri sólskinsstundir mælst í borginni í júní.Á Akureyri var einnig sólríkara en vanalega. Þar mældust stundirnar 186,3 sem er 9,7 stundum fleiri en meðaltalið. Sólskinu fylgdi þó engin sérstök hlýindi á Akureyri. Meðalhitinn þar var 9,6 stig í júní, hálfri gráðu yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,4 gráðum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Í Reykjavík var meðalhitinn 10,4 gráður sem er 1,3 gráðum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,3 gráðum yfir meðallagi síðustu tíu ára.
Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist 10,8 stig við Lómagnúp og í Skálholti. Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,3 gráður við Skarðsfjöruvita 12. júní. Í mannaðri veðurstöð mældist hlýjast 24,1 stig á Akureyri 27. júní.
Stefnir á að verða ellefta hlýjasta árið
Þegar litið er til fyrstu sex mánaða ársins hefur meðalhiti á landinu verið 1,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum yfir meðallagi síðasta áratugarins. Stefnir árið í ár á að verða það ellefta hlýjasta af síðustu 149 árum.Úrkoma hefur verið tæp 10% umfram meðallag í Reykjavík það sem af er ári en um meðallag á Akureyri.