Íslenski boltinn

Fyrsti útisigur Magna í næstum því 300 daga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnamenn höfðu ekki gert neinar rósir á útivelli í sumar, þar til í Keflavík í kvöld.
Magnamenn höfðu ekki gert neinar rósir á útivelli í sumar, þar til í Keflavík í kvöld. fbl/ernir
Magni gerði góða ferð til Keflavíkur og vann 0-3 sigur á heimamönnum í 12. umferð Inkasso-deildar karla í kvöld.

Þetta var fyrsti útisigur Magna síðan í lokaumferð Inkasso-deildarinnar í fyrra, eða í 298 daga. Magnamenn unnu þá ÍR-inga í Mjóddinni, 2-3, og björguðu sér frá falli.

Keflvíkingar voru sterkari aðilinn framan af í leiknum í kvöld en á 27. mínútu kom Kristinn Þór Rósbergsson gestunum frá Grenivík yfir. Átta mínútum síðar bætti Lars Óli Jessen öðru marki við. Áki Sölvason skoraði svo þriðja mark Magna úr vítaspyrnu á 81. mínútu.

Magni er enn í tólfta og neðsta sæti deildarinnar en aðeins markatölu frá öruggu sæti. Keflavík, sem er án sigurs í fimm leikjum í röð, er í 7. sæti.

Rick Ten Voorde skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik í Þórstreyjunni.vísir/bára
Rick Ten Voorde skoraði bæði mörk Þórs í 2-1 sigri á Njarðvík í sínum fyrsta leik fyrir Akureyrarliðið. Hann kom sem lánsmaður frá Víkingi R. í síðustu viku.

Með sigrinum komst Þór upp í 2. sæti deildarinnar. Njarðvík er í því tíunda.

Ten Voorde kom Þórsurum yfir á 5. mínútu en fimm mínútum síðar skoraði Jóhann Helgi Hannesson sjálfsmark og jafnaði fyrir gestina.

Staðan var 1-1 í hálfleik en á upphafsmínútu seinni hálfleiks skoraði Ten Voorde sigurmark Þórs. Hann nýtti sér þá slæm mistök Brynjars Atla Bragasonar í marki Njarðvíkur. Lokatölur 2-1, Þórsurum í vil.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir

Úr Víkinni í Þorpið

Rick Ten Voorde er á förum frá Víkingi R. Akureyri verður væntanlega næsti viðkomustaður hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×