Körfubolti

Ekkert til í því að Stjarnan sé að semja við Amin Stevens

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amin Stevens var illviðráðanlegur í íslensku deildinni.
Amin Stevens var illviðráðanlegur í íslensku deildinni. vísir/ernir
Amin Stevens átti að vera á leiðinni til Stjörnunnar fyrir komandi tímabil í Domino´s deild karla í körfubolta samkvæmt kjaftasögum í íslenska körfuboltaheiminum en innanbúðarmenn í Garðabænum kannast ekkert við það.

Hilmar Júlíusson, formaður Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, segir ekkert til í þeim sögum að félagið sé að semja við bandaríska miðherjann Amin Stevens.

„Hann er ekki á leiðinni til Stjörnunnar,“ staðfesti Hilmar við Vísi í morgun. Stjörnumenn eru enn að leita sér að nýjum bandarískum leikmanni fyrir komandi tímabil.

Það er ljóst að það væri stórfrétt ef deildar- og bikarmeistararnir væru að fá svo öflugan leikmann til sín eða að einhverju öðru íslensku félagi tækist að fá þennan 200 sentímetra kappa aftur í íslensku deildina.

Amin Khalil Stevens hefur spilað eitt tímabil í Domino´s deildinni og var þá valinn besti erlendi leikmaður deildarinnar.

Stevens var með 28,6 stig og 16,0 fráköst að meðaltali með Keflavíkurliðinu veturinn 2016 til 2017. Hann var efstur á Íslandsmótinu í stigum í leik, fráköstum í leik og framlagi í leik.

Stevens hefur síðan spilað með Rouen í Frakklandi (2017-18) og Brussels í Belgíu (2018-19). Amin Stevens var með 13,6 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í Belgíu en 18,1 stig og 9,1 frákst að meðaltali í b-deildinni í Frakklandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×