Erlent

Tveir fréttamenn á meðal hinna látnu í hryðjuverkaárás í Sómalíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sómalska fréttakonan Hodan Nalayeh var 43 ára þegar hún lést.
Sómalska fréttakonan Hodan Nalayeh var 43 ára þegar hún lést. Mynd/Facebook
Tuttugu og sex eru látin og að minnsta kosti fimmtíu særð eftir árás á hótel í hafnarborginni Kismayu í Sómalíu. Þeirra á meðal eru frambjóðandi í héraðsstjórnarkosningum, tveir fréttamenn, tveir Bandaríkjamenn, einn breskur ríkisborgari og einn starfsmaður Sameinuðu þjóðanna.

Hryðjuverkasamtökin Al Shaabab hafa gengist við morðunum. Fjórir liðsmenn þeirra sprengdu fyrst bílsprengju við hótelið og réðust svo til inngöngu í það. Allir fjórir féllu í átökum við öryggissveitir.

Fundur stjórnmálamanna úr héraðinu stóð yfir á hótelinu þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. Á vef BBC er haft eftir sjónarvottum að gríðarleg sprenging hafi heyrst áður en mennirnir réðust inn á hótelið, þar sem mikil skelfing hafi gripið um sig.

Á meðal hinna látnu er fréttakonan Hodan Nalayeh og eiginmaður hennar, Farid. Hodan stofnaði fréttamiðilinn Integration TV og fjallaði þar um daglegt líf í Sómalíu. Hodan flutti til Kanada með fjölskyldu sinni þegar hún var sex ára og varð þar einn forkólfa í samfélagi Sómala í landinu. Hún settist nýlega aftur að í Sómalíu með eiginmanni sínum og börnum. 

Blaðamaðurinn Farhan Jimale minntist Hodan á Twitter-reikningi sínum eftir árásina. Þá lést sómalski blaðamaðurinn Mohamed Omar Sahal einnig á árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×