62 ára karlmaður hefur verið dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að sýna af sér stórfellt gáleysi þegar hann ók á gangandi vegfaranda á gangbraut á Bitruhálsi í Reykjavík þann 4. desember 2017. Maðurinn sem varð fyrir bílnum slasaðist alvarlega og eru möguleikar hans á að vinna fyrir sér í framtíðinni mjög takmarkaðir.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 3. júlí en slysið varð að morgni mánudagsins 4. desember. Maðurinn, sem var við vinnu í hverfinu og í göngutúr, man ekkert eftir atburðum dagsins. Hann hlaut áverkainnanskúmsblæðingu og höfuðkúpubrot vegna slyssins. Var honum haldið sofandi í öndunarvél í ellefu daga og dvaldi mánuðum saman á göngudeild Grensásdeildar í framhaldinu.
Ökumaðurinn neitaði sök í málinu, að hafa sýnt af sér gáleysi. Hann hefði ekki séð gangandi vegfarandann fyrr en hann sá hann liggja í götunni. Hann hefði fundið eitthvað skella á vinstri framhlið bifreiðar sinnar. Ekkert bendir til annars en að gangandi vegfarandinn hafi verið á eðlilegum gönguhraða þegar slysið varð.
Erfiðar aðstæður kalli á sérstaka varkárni
Í niðurstöðu sinni fjallar héraðsdómur um ábyrgð ökumanna eins og segir í umferðarlögum. Ökumaður megi ekki valda gangandi vegfaranda sem fer yfir akbraut sem beygt er inn á hættu eða óþægindum. Hann skuli bíða eftir gangandi vegfaranda á meðan hann fer yfir gangbrautina.
Í lögregluskýrslu kom fram að myrkur hafi verið umræddan morgun en götulýsing góð. Yfirborð vegar hafi verið blautt. Ökumaðurinn lýsti aðstæðum sem mjög slæmum, mikið dimmviðri og myrkur, rigningarúði og lýsing ekki góð.
Dómurinn minnir á að erfiðar aðstæður kalla á sérstaka varkárni ökumanns og ökuhraða eigi að miða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annars. Ökumaður skuli þannig miða hraðann við gerð og ástand vegar, veður, birtu, ástand ökutækis og hleðslu, svo og umferðaraðstæður að öðru leyti. Hraðinn megi aldrei verða meiri en svo að ökumaður hafi fullt vald á ökutækinu og geti stöðvað það á þeim hluta vegar sem sé fram undan.
Takmarkaðir möguleikar á vinnu
Í niðurstöðu dómsins segir að engin ástæða sé til að véfengja orð ökumannsins um að hann hafi ekið rólega yfir gatnamótin, enda aðstæður verið slæmar. Engu að síður hafi svo farið að hann ók bílnum á gangandi vegfaranda sem hann tók ekki eftir fyrr en allt var um garð gengið. Óhjákvæmilegt væri annað en að komast að þeirri niðurstöðu að ökumaðurinn hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi.
Ökumaðurinn á engan sakaferil, kominn á sjötugsaldur og sagði dómurinn engan vafa leika á því að málið hefði verið honum mjög erfitt. Hann hefði síðan leitað sér endurmenntunar sem ökumaður. Hann hefði verið hreinskilinn fyrir dómi. Þá kom fram að vegfarandinn hefði verið undir áhrifum kannabis, sem mældist í blóði hans. Dómurinn taldi að þrátt fyrir það væru ekki líkur á að hann hefði farið óvarlega á ferð sinni svo máli skipti.
Aftur á móti hefði tjón hins gangandi vegfaranda verið mjög verulegt. Hann glímir nú við vitræna skerðingu og er að mati læknis eins og barn í vitrænum þroska. Möguleikar á vinnu í framtíðinni eru mjög takmarkaðir. Ljóst sé að atvikið hafi í för með sér miklar og vafalaust þungbærar breytingar í lífi hans.
Tryggingafélag ökumannsins hefur þegar greitt honum sex milljónir króna og var ökumaðurinn dæmdur til að greiða honum fjórar milljónir króna til viðbótar í miskabætur.
Uppfært kl. 21:34: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að ökumaðurinn sem um ræðir hafi mælst með kannabis í blóði. Hið rétta er að í dómnum kemur fram að það hafi verið vegfarandinn sem mældist undir áhrifum kannabis.