Viðskipti innlent

Afkoma Landsbankans jákvæð um 11,1 milljarð

Andri Eysteinsson skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir segir að nær öll aukningin á síðustu mánuðum hafi verið í óverðtryggðum lánum.
Lilja Björk Einarsdóttir segir að nær öll aukningin á síðustu mánuðum hafi verið í óverðtryggðum lánum. Fréttablaðið/Eyþór
„Tekjur bankans voru hærri og kostnaður lægri en gert var ráð fyrir og ljóst er að grunnreksturinn er traustur og skilar góðri arðsemi,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans um uppgjör bankans fyrir fyrri helming ársins 2019.

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,1 milljarð króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2019 samanborið við 11,6 milljarða hagnað á sama tímabili árið 2018. Hreinar vaxtatekjur voru 20,5 milljarðar króna og hækkuðu um 5% milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur voru 4,1 milljarður en höfðu verið 3,9 á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarkostnaður bankans nam 12,2 milljörðum og stendur í stað milli ára. „Aðhald í rekstri bankans á stóran þátt í að rekstrarkostnaður bankans stendur í stað á milli tímabila. Einnig hefur skilvirkni aukist með hagnýtingu á stafrænni tækni og nýjungar í þjónustu hafa fengið góðar viðtökur hjá viðskiptavinum. Kostnaðarhlutfall bankans á fyrri helmingi ársins var rúmlega 40% sem er lægra en á sama tíma í fyrra og lægra en markmið bankans,“ segir Lilja Björk.

Rekstrarkostnaður að frátöldum launum hækkaði um 2% hjá bankanum á tímabilinu en gjöldin námu 3,7 milljörðum króna.

Eigið fé Landsbankans nam 24,6 milljörðum króna og hefur hækkað um 0,4% frá áramótum. Heildareignir bankans námu 1.403 milljörðum króna í júnílok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×