Erindrekinn, Robert O‘Brien, sást fyrr í dag í réttarsal í dómshúsi í Stokkhólmi þar sem rapparinn, hvers raunverulega nafn er Rakim Mayers, var leiddur fyrir dómara. Guardian greinir frá þessu.
Talskona bandaríska sendiráðsins í Svíþjóð, Ruth Newman, segir O‘Brien hafa verið sendan til Svíþjóðar „til þess að fylgjast með velferð bandarískra ríkisborgara,“ en hún segir það vera helsta hlutverk utanríkisþjónustunnar. Réttarhöld yfir rapparanum hófust í dag.
A$AP Rocky er gefið að sök að hafa, ásamt tveimur öðrum mönnum, ráðist á 19 ára karlmann í Stokkhólmi þann 30. júní síðastliðinn. Hann hefur verið í varðhaldi síðan í byrjun júlí.
Í Svíþjóð tíðkast ekki að sakborningum sé sleppt gegn tryggingu, og því hefur A$AP Rocky verið í varðhaldi síðan hann var handtekinn í byrjun júlí.
Gert er ráð fyrir að réttað verði yfir A$AP Rocky næstu tvo daga, en á fimmtudag, síðasta degi réttarhaldanna, verða vitni í máli hans og hinna tveggja sakborninganna leidd fyrir dómara.
Vel þekktir verndarenglar vaka yfir Rocky
Trump Bandaríkjaforseti hefur verið ötull talsmaður þess að A$AP Rocky verði veitt frelsi. Hann hefur þó nokkrum sinnum tíst um prísund rapparans og telur ósanngjarnt að honum sé haldið í varðhaldi.Eins hefur forsetinn átt í samskiptum við Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, til þess að reyna að liðka fyrir því að A$AP Rocky fái að ganga laus. Þær tilraunir forsetans hafa þó ekki borið árangur, þar sem Löfven sagðist ekki geta blandað sér í dómsmál í Svíþjóð, og má merkja nokkra kergju hjá Trump vegna þess. Hefur hann meðal annars tíst um að Bandaríkin „geri svo mikið fyrir Svíþjóð, en það virki greinilega ekki þannig í hina áttina.“
Trump hefur líka tíst á þá leið að Svíþjóð sé hreinlega að bregðast samfélagi þeldökkra Bandaríkjamanna með því að sækja rapparann til saka, en A$AP Rocky er einmitt dökkur á hörund. Ekki liggur ljóst fyrir hvað forsetinn átti nákvæmlega við með þeim orðum sínum eða þá hvers lags ábyrgð hann telur Svíþjóð bera gagnvart samfélagi þeldökkra Bandaríkjamanna.
Forsetinn er þó ekki eina frægðarmennið sem hefur lagt lóð sín á vogarskálarnar í þeirri viðleitni að aðstoða A$AP Rocky. Kim Kardashian, Justin Bieber og Sean Combs, betur þekktur sem Puff Daddy, P. Diddy, Puffy eða Diddy, hafa öll kallað eftir því að rapparanum verði sleppt. Eins hefur myllumerkið #JusticeForRocky (#RéttlætiFyrirRocky) farið hátt á samfélagsmiðlum að undanförnu.