Erlent

Frambjóðendum í Kaliforníu gert skylt að birta skattaskýrslur

Andri Eysteinsson skrifar
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu.
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu. Getty/MediaNewsGroup
Ríkisstjóri Kaliforníu, demókratinn Gavin Newson, hefur skrifað undir löggjöf sem gerir forsetaframbjóðendum, sem vilja taka þátt í prófkjöri í ríkinu, skylt að birta skattaskýrslur sínar. Lögin, sem ná einnig til frambjóðenda til embættis ríkisstjóra, eru sögð vera sett til höfuðs sitjandi forseta, Donald Trump. AP greinir frá.

Talið er líklegt að löggjöfinni verði skotið til dómstóla sem munu úrskurða hvort þau standist stjórnarskrá Bandaríkjanna. Úrskurði dómstólar á þá vegu að lögin þyki standast stjórnarskrá munu frambjóðendur þurfa að skila skattaskýrslum sínum fyrir síðustu fimm ár að minnsta kosti 98 dögum fyrir prófkjör síns flokks sem fram fer 3. mars næstkomandi. Skýrslurnar verða svo birtar almenningi á Internetinu.

Gerð var tilraun til þess að setja samskonar löggjöf í Kaliforníu árið 2017 en þá beitti þáverandi ríkisstjóri, demókratinn Jerry Brown, neitunarvaldi sínu. Brown sagðist þá efast um að lögin stæðust stjórnarskrá og hafði áhyggjur af þeirri vegferð sem löggjafinn var á.

Eins og áður sagði hafa lögin verið sögð hafa verið sett til höfuðs sitjandi forseta, Donald Trump, en sá hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki viljað birta gögn úr skattaskýrslum sínum. Framboð Trump hefur brugðist við lögunum og hefur sagt þau stangast á við stjórnarskrá, góð ástæða hafi verið fyrir því að Jerry Brown hafi beitt neitunarvaldi árið 2017.

Enginn frambjóðandi sem talinn er líklegur til stórræða hefur boðið sig fram gegn Trump í Repúblikanaflokknum og því er talið að hann geti sleppt prófkjöri flokksins í Kaliforníu verði lögin í gildi þegar að því kemur. Talið er að sá fjöldi kjörmanna sem hann fengi í öðrum ríkjum Bandaríkjanna muni duga til þess að tryggja honum tilnefningu Repúblikanaflokksins öðru sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×