Fótbolti

Rúnar Már með tvö mörk og stoðsendingu í stórsigri Astana í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson. Getty/Francois Nel
Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Astana eru komnir með annan fótinn í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir 5-1 stórsigur á Valletta frá Möltu í fyrri leik liðanna í dag.

Rúnar Már Sigurjónsson átti stórleik í þessum leik í Kasakstan í dag því hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Það sem er meira er að mörkin sem Rúnar Már kom að voru þrjú af fjórum fyrstu mörkum liðsins.

Leikurinn var í þriðji umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en sigurvegarinn kemst í umspilið. Seinni leikurinn fer fram á Möltu í næstu viku.

Rúnar Már Sigurjónsson kom Astana liðinu í 1-0 strax á 8. mínútu leiksins og lagði síðan upp annað markið fyrir miðvörðinn Yuri Logvinenko á 15. mínútu en markið kom eftir aukaspyrnu Rúnars.

Rúnar Már kom Astana síðan í 4-0 á 57. mínútu leiksins en í millitíðinni hafði Króatinn Marin Tomasov skorað þriðja markið.

Valetta minnkaði muninn í 4-1 á 67. mínútu en varamaðurinn Rangelo Janga skoraði fimmta mark Astana tíu mínútum fyrir leikslok.

Rúnar Már reyndi að innsigla þrennuna undir lokin en hitti ekki markið. Þessi öruggi sigur fer hins vegar lang með að koma Astana áfram. Aðeins stórslys á Möltu kemur í veg fyrir það.

Rúnar Már Sigurjónsson er nú búinn að skora þrjú mörk í Evrópudeildinni á þessu tímabili en hann skoraði einnig í 4-1 heimasigri á FC Santa Coloma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×