Erlent

Lúxem­borg lík­lega fyrsta Evrópu­landið til að lög­leiða kanna­bis

Sylvía Hall skrifar
Áætlað er að breytingarnar taki gildi innan tveggja ára.
Áætlað er að breytingarnar taki gildi innan tveggja ára. Vísir/Getty
Heilbrigðisráðherra Lúxemborgar hefur staðfest að landið ætli sér að verða fyrsta Evrópulandið til þess að lögleiða framleiðslu og neyslu kannabisefna. Varaforsætisráðherra segir stefnu landsins í fíkniefnamálum síðasta hálfa áratuginn ekki hafa borið árangur.

„Að banna allt hefur aðeins gert þetta meira spennandi fyrir ungt fólk,“ sagði varaforsætisráðherrann Etienne Schneider í samtali við Politico. Hann sagðist vona að breytingarnar yrðu til þess að fólk yrði víðsýnna þegar kæmi að fíkniefnum.

Búist er við því að breytingarnar taki gildi innan tveggja ára. Þá munu íbúar landsins yfir átján ára aldri geta keypt sér kannabisefni til neyslu og mun ríkið búa til lagaramma utan um framleiðslu og dreifingu efnanna.

Áætlað er að uppkast að lögunum verði klárt fyrir árslok þar sem fram mun koma hverskonar kannabis verði leyfilegt sem og hvernig það verður skattað.

Vilja koma í veg fyrir fíkniefnatúrisma

Með breytingunni verður varsla kannabisefna afglæpavædd og verður ungmennum á aldrinum 12 til 17 ára ekki refsað fyrir vörslu á fimm grömmum eða minna. Þeir sem fari hins vegar yfir það magn eigi von á harðri refsingu.

Löggjöfin mun að öllum líkindum ekki ná yfir ferðamenn. Það er gert til þess að koma í veg fyrir að ferðamenn ferðist til landsins til þess eins að neyta kannabisefna. Þá er ekki stefnt að því að leyfa heimaræktun.

Fari svo að löggjöfin verði að veruleika mun Lúxemborg feta í fótspor Kanada, Úrúgvæ og ellefu ríkja Bandaríkjanna. Landið hefur nú þegar lögleitt efnið í læknisfræðilegum tilgangi en kaup og sala þess er enn ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×