Erlent

Trump heimsækir vettvang fjöldamorða, segist sameina þjóðina með orðræðu sinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump forseti og eiginkona hans Melania við komuna til Dayton í dag.
Trump forseti og eiginkona hans Melania við komuna til Dayton í dag. AP/Ty Greenless
Donald Trump Bandaríkjaforseti hafnaði því að orðræða hans gegn útlendingum og hælisleitendum kynti undir ofbeldi og hatur áður en hann lagði af stað í heimsókn til Dayton og El Paso þar sem fjöldamorð voru framin um helgina. Forsetinn sagði orð sín þvert á móti sameina þjóðina.

Morðinginn sem skaut á þriðja tug viðskiptavina Walmart-verslunar í El Paso til bana notað sömu orð um innflytjendur og Trump forseti hefur ítrekað gert, að útlendingar gerðu innrás í Bandaríkin. Hataðist hann jafnframt gegn „falsfréttum“ líkt og forsetinn gerir linnulaust. Virtist markmið hans vera að reyna að drepa sem flesta innflytjendur. Fjöldamorðið er rannsakað sem hatursglæpur.

Fréttamenn spurðu Trump að því hvort að orðræða hans gæti átt þátt í að skapa andrúmslofts haturs þar sem skotárásir líkt og sú sem gerð var í El Paso eiga sér stað.

„Ég held að orðræða mín sameini fólk,“ sagði forsetinn. Fullyrti Trump að hann hafnaði allri öfgahyggju, hvort sem það væri hvít þjóðernishyggja eða vinstriöfgamenn úr hreyfingu andfasista. Sakaði hann gagnrýnendur sína um að reyna að slá pólitískar keilur.

Mótmælendur fyrir utan Miami-dalssjúkrahúsið sem Trump forseti heimsótti í Dayton í dag.AP/John Minchillo

Mótmæli gegn heimsókninni

Sumir stjórmálamenn í Dayton í Ohio og El Paso í Texas höfðu hvatt Trump til að láta það vera að heimsækja borgirnar eftir hildarleikinn þar.

Ekki bætti úr skák þegar Trump sendi frá sér tíst í gærkvöldi þar sem hann sagði Beto O‘Rourke, frambjóðanda í forvali demókrata, sem er frá El Paso að þegja. O‘Rourke hafði kallað Trump rasista eftir skotárásina þar. Tístið kom ekki löngu eftir að Trump hafði haldið ræðu þar sem hann talaði um mikilvægi þess að láta af „skaðlegum flokkadráttum“.

Heimsókn forsetans var mótmælt á götum Dayton en stuðningsmenn forsetans létu einnig sjá sig þar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Yfirleitt hafa Bandaríkjaforsetar haldið opinberar ræður til að veita samfélag sem hefur orðið fyrir harmleik eins og þeim sem skóku El Paso og Dayton huggun.

Að sögn Washington Post lét Trump hins vegar lítið sjá sig opinberlega í heimsókninni til Dayton. Hann hitti meðal annars viðbragðsaðila á sjúkrahúsi, sjúkrahússstarfsfólk og fórnarlömb sem særðust í skotárásinni á aðfaranótt sunnudags. Níu manns létust í árásinni. AP-fréttastofan segir um um tvö hundruð mótmælendur hafi verið fyrir utan sjúkrahúsið sem kröfðust aðgerða til að takmarka byssueign.

Eftir að Trump yfirgaf Dayton nú síðdegis ræddu Nan Whaley, borgarstjórinn þar, og Sherrod Brown, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Ohio, við fréttamenn. Whaley sagði þau hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að herða byssulöggjöfina við Trump. Viðbragðsaðilar hafi verið þakklátir forsetanum að hann kæmi til borgarinnar.

Næst fer Trump til landamæraborgarinnar El Paso. Þar eru fjölmargir íbúar af mexíkóskum ættum. Þar hafa mótmæli staðið yfir gegn heimsókn Trump forseta í allan dag.

Rasísk ummæli Trump forseta um þeldökkar þingkonur demókrata og ásókn meindýra í kjördæmi svarts þingmanns sem stýrir rannsókn á honum hafa valdið deilum vestanhafs undanfarnar vikur. Trump hefur jafnframt ítrekað talað um komur útlendinga af Mið-Ameríku til Bandaríkjanna sem innrás og líkt við ásókn meindýra. Í kosningabaráttunni árið 2016 kallaði hann Mexíkóa nauðgara og glæpamenn og lofaði að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Systir árásarmannsins í Dayton meðal látinna

Systir árásarmannsins sem varð níu manns að bana í skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki er meðal þeirra sem létust í árásinni. Hún hét Megan Betts og var 22 ára.

Tala látinna í El Paso hækkar

Fjöldi látinna er kominn upp í 21 eftir að eitt fórnarlamba skotárásarinnar lést á sjúkrahúsi í El Paso í dag.

Níu látnir eftir aðra skotárásina á 13 tímum

Níu eru látnir og 16 særðust í skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki í nótt. Lögreglan í Dayton segir að auk hinna níu fórnarlamba sé árásarmaðurinn látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×