Erlent

Blendin viðbrögð við fyrirhugaðari heimsókn Trump til El Paso

Sylvía Hall skrifar
Frá blaðamannafundi Trump á mánudag.
Frá blaðamannafundi Trump á mánudag. Vísir/Getty
Fyrirhuguð heimsókn Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur vakið blendin viðbrögð íbúa borgarinnar. Margir segja hann bera ábyrgð á þeirri orðræðu sem hefur ýtt undir aukna þjóðernishyggju í landinu og frekari jaðarsetningu innflytjenda en árásarmaðurinn sagði í stefnuyfirlýsingunni sinni að hann ætlaði að bjarga Bandaríkjunum frá frekari innrás innflytjenda frá rómönsku Ameríku.

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt heimsóknina er Beto O‘Rourke, frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2020. Hann sagði forsetann hafa ýtt undir hatrið sem hvatti árásarmanninn áfram og hann ætti því ekki að heimsækja borgina í kjölfar árásarinnar. Borgin þyrfti ekki á frekari sundrung að halda.

Borgarstjórinn Dee Margo er ekki á sama máli og sagðist myndu taka á móti forsetanum í heimsókn hans. Heimsóknin væri ekki pólitísks eðlis heldur væri hann forseti Bandaríkjanna og þau myndu funda saman um þarfir íbúa El Paso.

Á blaðamannafundi Trump á mánudag tjáði hann sig um árásirnar tvær sem urðu um helgina. Þar sagði hann nauðsynlegt að fordæma rasisma, ofstæki og hvíta þjóðernishyggju. Þá vildi hann jafnframt herða refsingar við hatursglæpum og fjöldamorðum og lagði til að þeir sem fremdu slík ódæðisverk yrðu teknir af lífi.


Tengdar fréttir

Tala látinna í El Paso hækkar

Fjöldi látinna er kominn upp í 21 eftir að eitt fórnarlamba skotárásarinnar lést á sjúkrahúsi í El Paso í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×