Íslenski boltinn

KR-ingar mæta eina íslenska liðinu sem hefur unnið þá í ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur.
Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur. vísir/daníel
KR fær Grindavík í heimsókn í 15. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

KR hefur aðeins tapað tveimur leikjum í ár, gegn Molde frá Noregi í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar og Grindavík.

Grindvíkingar unnu KR-inga í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar, 2-1. Alexander Veigar Þórarinsson og Aron Jóhannsson (víti) skoruðu mörk Grindavíkur en Björgvin Stefánsson mark KR.

Frá leiknum í Grindavík 16. maí hefur KR leikið tíu leiki í Pepsi Max-deildinni; unnið níu og gert eitt jafntefli og fengið 28 stig af 30 mögulegum.

Þetta frábæra gengi hefur skilað KR tíu stiga forskoti sem gæti orðið 13 stig eftir leiki kvöldsins.

Ekkert lið hefur fengið á sig jafn fá mörk í Pepsi Max-deild karla og Grindavík (11).vísir/daníel
Grindavík hefur gengið öllu verr að safna stigum eftir sigurinn á KR. Grindvíkingar hafa unnið tvo af tíu deildarleikjum síðan þá, gert sex jafntefli, þar af fimm markalaus, og tapað tveimur. Uppskeran er tólf stig af 30 mögulegum.

Þrátt fyrir að hafa aðeins tapað þremur leikjum og fengið á sig ellefu mörk, fæst allra í deildinni, er Grindavík aðeins einu stigi frá fallsæti. Leikurinn í kvöld er því afar mikilvægur fyrir þá gulu.

Grindavík hefur ekki enn unnið útileik í Pepsi Max-deildinni. Í sex útileikjum til þessa á tímabilinu hafa Grindvíkingar gert fjögur jafntefli og tapað tveimur. Markatalan er 3-5.

Í hinum leik kvöldsins mætast FH og ÍA í Kaplakrika. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og þá verða báðir leikir kvöldsins í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×