Íslenski boltinn

Anna María: Loksins tökum við bikarinn með okkur yfir brúna

Gabríel Sighvatsson skrifar
Anna María hendir bikarnum á loft.
Anna María hendir bikarnum á loft. vísir/daníel
Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, var í skýjunum með sigurinn á KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í dag.

„Þetta er bara geggjað. Ég er búin að bíða eftir þessu lengi og loksins tökum við bikarinn með okkur yfir brúna.“

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Selfoss og liðið hefur þurft að bíða lengi eftir honum.

„Það er svo sætt ég á engin orð til að lýsa því. Fólkið okkar kemur allt hérna á mörgum rútum frá Selfossi til þess að styðja við bakið á okkur og við urðum að vinna þetta fyrir það.“

„Þetta var vinnusigur. Þetta var ekki fallegasti fótboltinn í dag, mikið rok á vellinum, erfitt að stjórna boltanum. Þetta datt okkar megin í dag, KR liðið var mjög flott í dag, þetta var held ég jafn og skemmtilegur leikur að horfa á.“

Hetja Selfyssingar kom úr óvæntri átt. Þóra Jónsdóttir, fædd árið 1998, kom inn á rétt fyrir framlenginguna og skoraði markið sem tryggði Selfossi titilinn.

„Fyrsta markið hjá Þóru í meistaraflokki og gátum ekki beðið um betri stund til þess að skora þetta mark.“

En hvað þýðir þetta fyrir framhaldið hjá liðinu?

„Það er bara áfram gakk, við ætlum að sækja 3. sætið í deildinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×