Ernir skoraði sigurmark Leiknismanna þegar mínúta var til leiksloka. Breiðhyltingar eru áfram í 4. sæti deildarinnar en eru nú aðeins þremur stigum frá 2. sætinu. Leiknir hefur ekki tapað í fimm leikjum í röð. Þróttarar hafa hins vegar tapað tveimur leikjum í röð og eru í 8. sæti deildarinnar.
Gyrðir Hrafn Guðbrandsson kom Leikni yfir á 11. mínútu eftir sendingu Ingólfs Sigurðssonar. Lárus Björnsson jafnaði í 1-1 á 67. mínútu og allt stefndi í jafntefli. En Ernir var á öðru máli eins og fyrr sagði. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.
Fjölnir og Grótta gerðu markalaust jafntefli í toppslag á Extra-vellinum í Grafarvogi. Þetta var þriðja jafntefli Fjölnismanna í röð og fjórða jafntefli Seltirninga í síðustu fimm leikjum.
Fjölnir er með 35 stig á toppi deildarinnar en Grótta er í 3. sæti með 31 stig, einu stigi á eftir Þór sem er í 2. sætinu.
Rick Ten Voorde bjargaði stigi fyrir Þórsara gegn Haukum fyrir norðan þegar hann skoraði úr vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok. Þetta var fimmta mark hollenska framherjans fyrir Þór í aðeins sjö leikjum.
Aron Freyr Róbertsson skoraði mark Hauka úr vítaspyrnu á 24. mínútu. Hafnfirðingar eru í 10. sæti deildarinnar með 15 stig. Magni getur sent Hauka í fallsæti með því að vinna Aftureldingu í lokaleik 17. umferðar á morgun.
Þá tryggði glæsilegt mark Dags Inga Valssonar Keflavík sigur á Víkingi Ó., 2-1, suður með sjó.
Staðan var 1-1 í hálfleik en bæði mörkin komu úr vítum. Adold Bitegeko kom Keflvíkingum yfir á 23. mínútu en Harley Willard jafnaði fyrir Ólsara sjö mínútum síðar. Á 71. mínútu skoraði Dagur Ingi sigurmarkið með góðu skoti eftir að hafa leikið á varnarmann gestanna.
Með sigrinum komst Keflavík upp fyrir Víking í 6. sæti deildarinnar.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.