Fram lyfti sér upp í 5. sæti Inkasso-deildar karla með 2-0 sigri á Njarðvík í Safamýrinni í kvöld.
Bæði mörkin komu undir lok leiks. Á 79. mínútu braut Fred Saraiva ísinn þegar hann nýtti sér slæm varnarmistök Njarðvíkinga.
Þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Helgi Guðjónsson svo annað mark heimamanna eftir sendingu frá Tiago Fernandes.
Þetta var tólfta mark Helga í sumar. Hann er næstmarkahæstur í Inkasso-deildinni á eftir Gróttumanninum Pétri Theódóri Árnasyni sem hefur skorað 13 mörk.
Þetta var annar sigur Fram í síðustu tveimur leikjum. Liðið er með 26 stig, fimm stigum frá 2. sætinu.
Njarðvík er hins vegar á botni deildarinnar með ellefu stig, þremur stigum frá öruggu sæti.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
